„Það er alveg ljóst að við munum standa við allar þær skuldbindingar sem við höfum gert á alþjóðlegum vettvangi," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag, þegar hún var spurð út í ummæli forseta Íslands  í Financial Times Deutschland.

Þar var haft eftir forsetanum að þýskum sparifjáreigendum yrði ekki bætt það tap sem þeir hefðu orðið fyrir vegna innlagna á Kaupþing Edge í Þýskalandi.

„Ég held það hljóti að vera einhver misskilningur í þessu," sagði Jóhanna, spurð út í þessi ummæli. „Það er alveg ljóst að við munum standa við allar þær skuldbindingar sem við höfum gert á alþjóðlegum vettvangi."

Steingrímur J. Sigfússson fjármálaráðherra tók undir með Jóhönnu og benti á að Kaupþing hefði verið í viðræðum við þýsk stjórnvöld um að greiða hverja einustu krónu. „Það eru ekki líkur á því að ein einasta króna lendi á [íslenskum] skattgreiðendum vegna þessa máls," sagði hann enn fremur.

Hann ítrekaði að þetta mál væri í góðum farvegi milli Kaupþings og þýskra stjórnvalda.