Nauðsynlegt er að sækja sem fyrst um aðild að Evrópusambandinu (ESB) og við eigum að nota tækifærið á meðan Svíar og Finnar eru við stýrið innan sambandsins og hefja aðildarviðræður.

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra  í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem nú stendur yfir en Svíþjóð tekur við formennsku í ESB í júlí á þessu ári.

„Ég hef talað skýrt í Evrópumálum og ég geri það hér með ykkur í dag,“ sagði Jóhanna.

„Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að það sé eina trúverðuga leiðin til stöðugleika og farsældar fyrir íslenska þjóð að óska nú þegar eftir viðræðum við Evrópusambandið um fulla aðild og upptöku Evru. Ég byggi það ekki á tilfinningasemi heldur sjónarmiðum og rökum fjölmargra sérfræðinga sem hafa árum saman ráðlagt að sú leið verði farin.“

Jóhanna sagði að á sama tíma þyrftum við einnig að veita íslensku krónunni eins trausta umgjörð og kostur er á meðan beðið er niðurstöðu til frambúðar.

Þá sagði Jóhanna að „villuljós“ um einhliða upptöku evru eða upptöku evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið ekki vera boðleg í þessari umræðu.

„Slíkar leiðir eru ekki í boði og umræða um þær drepur málum aðeins á dreif,“ sagði Jóhanna.

„Niðurstaða aðildarviðræðna mun leiða í ljós svart á hvítu þau tækifæri sem felast í aðild að Evrópusambandinu bæði varðandi almenn lífskjör og í gjaldmiðlamálum. Þannig fengi þjóðin raunhæfa kosti sem hún gæti atekið afstöðu til en slíkir raunverulegir kostir fengjust aldrei upp á borðið í óformlegum könnunarviðræðum,“ sagði Jóhanna.

Þá sagði hún að undirbúningur aðildarviðræðna yrði unninn í nánu samráði við aðila vinnumarkaðarins og ekki síst þá sem telja hagsmunum sínum ógnað, til dæmis útgerðarmenn og forystumenn í landbúnaði.

„Það segir sig sjálft að við munum ekki ganga í Evrópusambandið nema við fáum ásættanlegar niðurstöður til dæmis fyrir sjávarútveg eða landbúnað,“ sagði Jóhanna í ræðu sinni.

„Ég heiti ykkur því að leggja mitt lóð á  vogarskálarnar til að leiða þetta mikilvæga hagsmunamál til lykta og ég skora á ykkur að fara með mér í þá vegferð.“

Sjá ræðu Jóhönnu i heild sinni.