Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, keypti bíl af forsætisráðuneytinu þann 24. apríl í fyrra, daginn áður en alþingiskosningar fóru fram. Bíllinn er afgerðinni Honda CR-V og er árgerð 2007.

Forsætisráðuneytið keypti bílinn af félagsmálaráðuneytinu á 3.950 þúsund þann 13. júlí 2009,eða hálfu ári eftir að Jóhanna tók við embætti forsætisráðherra. Auk þessarar Hondu hafði Jóhanna einnig til umráða BMW 730Li í forsætisráðuneytinu. Jóhanna var félagsmálaráðherra á árunum 2007-2009 og hafði Honduna til umráða á þeim tíma.

Var á móti ráðherrabílum
Jóhanna tók sæti á Alþingi árið 1978. Sem þingmaður var hún alla tíð mjög mótfallin ráðherrabílum. Á löngum þingmannsferli spurði hún forsætisráðherra margsinnis um kostnaðinn við ráðherrabílana.

Í framhaldi af fyrirspurn til ráðherra haustið 1985 lagði Jóhanna fram þingsályktunartillögu um að fella úr gildi reglur um bílafríðindi ráðherra.

Árið 2004 sagði Jóhanna á heimasíðu sinni „Í svari forsætisráðherra við fyrirspurn minn á Alþingi sem birt var í dag kemur fram að kostnaður skattgreiðenda vegna útgjalda á ráðherrabifreiðum nam nálægt 500 milljónum á sl. 6 árum. Hvarflar að ráðherrunum að hægt sé að spara í þessum útgjaldalið skattborgarana á sama tíma og lögð er til lokun á bráðadeild Landspítalans, neyðarmóttöku í nauðgunarmálum eða að loka endurhæfingardeild fyrir 32 fjölfatlaða einstaklinga í Kópavogi?“

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiblaði Viðskiptablaðsins, sem kemur út í fyrramálið.