Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, telur það farsælast fyrir þjóðina að Sjálfstæðisflokknum sé haldið frá völdum.

Þetta sagði Jóhanna í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins fyrir stundu.

Líkt og fram hefur komið tilkynnti Jóhanna í dag að hún hygðist hætta í stjórnmálum í næsta vor, sem þýðir þá um leið að hún hættir sem formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í byrjun næsta árs.

Í fréttum RÚV spurði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður RÚV, Jóhönnu að því hvort hún væri ekki enn á þeirri skoðun að halda ætti Sjálfstæðisflokknum frá völdum. Jóhanna svaraði því til að henni fyndist það mikilvægt.

„Það er hlutverk okkar jafnaðarmanna,“ sagði Jóhanna.