Jóhanna Margrét Gísladóttir hefur hafið störf sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkunnar, dótturfélags Skeljungs. Undir sviðinu tilheyra markaðsmál, þjónusta, upplýsingatækni og stafræn þróun.

Jóhanna hefur síðan í mars stýrt markaðsmálum og ýmsum verkefnum á einstaklingssviði Skeljungs. Þar áður starfaði hún sem dagskrárstjóri Stöðvar 2 hjá Sýn og framkvæmdastjóri sjónvarpssviðs hjá 365 miðlum. Jóhanna er rekstrarverkfræðingur frá Duke háskóla í Bandaríkjunum.

„Orkan er á spennandi tímamótum og mörg krefjandi verkefni framundan sem ég hlakka til að takast á við með frábærum hópi fólks,“ er haft eftir Jóhönnu í fréttatilkynningu.

Sjá einnig: Dótturfélög Skeljungs taka til starfa

Orkan rekur fjölorkustöðvar og verslanir undir merkjum Orkunnar, verslanir 10-11 og Extra. Auk þess tilheyra Löður, Lyfsalinn, Lyfjaval og Gló samstæðu Orkunnar.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Orkunnar:

„Við erum á vegferð að einfalda líf viðskiptavina okkar á 21.öldinni sem krefst mikillar samvinnu innan okkar félags, sem og við samstarfsaðila okkar. Við vildum því setja upplýsingatækni, markaðsmál og þjónustu á sama svið sem Jóhanna mun leiða inn á nýja tíma.“