Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fer í opinbera heimsókn til Kína dagana 15. til 18. apríl næstkomandi. Með henni í för verður Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu. Fram kemur á vef forsætisráðuneytisins að boð kínverskra stjórnvalda um heimsóknina hafi verið komið á framfæri af þáverandi forsætisráðherra, Wen Jiabao, í heimsókn hér á landi í apríl 2012. Jóhanna mun í ferðinni funda með Li Keqiangs, forsætisráðherra Kína, og Xi Jinping, forseta landsins.

Í tengslum við heimsóknina verður undirritaður fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína. Unnið hefur verið að samningnum um sex ára skeið og sammæltust forsætisráðherrar landanna um það í apríl á síðasta ári að setja aukinn kraft í að ljúka viðræðum, að því er segir í tilkynningu ráðuneytisins. Samningurinn verður undirritaður af utanríkisráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra Kína.