Stjórn Listahátíðar í Reykjavík hefur ráðið Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík. Umsóknarfrestur um stöðuna rann út 26. maí sl. Tuttugu og þrjár umsóknir bárust um starfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Listahátíð en framkvæmdastjóri Listahátíðar er ráðinn frá 1. september 2008.

Jóhanna Vigdís starfaði áður sem forstöðumaður samskiptasviðs Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka hf. en þar áður sem markaðsstjóri hjá Deloitte hf. og Borgarleikhúsinu.

Jóhanna Vigdís er með MBA próf úr Háskólanum í Reykjavík, mastersgráðu í menningarfræðum frá Edinborgarháskóla og BA gráðu úr bókmenntafræði frá Háskóla Íslands.

Í tilkynningunni kemur fram að framkvæmdastjóri sér um fjölþættan undirbúning hverrar hátíðar, m.a. daglegan rekstur og stjórn fjármála Listahátíðar, fjáröflun og fleira í umboði stjórnar og listræns stjórnanda.

Jóhanna Vigdís tekur við starfi framkvæmdastjóra Listahátíðar af Hrefnu Haraldsdóttur sem gegnt hefur því starfi í rúm sjö ár en hún tekur við starfi listræns stjórnanda þann 1. október af Þórunni Sigurðardóttur sem verið hefur listrænn stjórnandi Listahátíðar í átta ár, segir í tilkynningunni.