Heimilt verður hækka dagvinnulaun ríkisstarfsmanna umfram laun Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra nái stjórnfrumvarp um slíkt fram að ganga. Jóhanna sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag frumvarpið tilbúið en var ekki viss hvort búið væri að leggja það fyrir þingið.

Það var Guðlaugur Þór Þórðarson, þingsmaður Sjálfstæðisflokksins, sem vakti máls á launamálum ríkisstarfsmanna eftir að launahækkun Björns Zoega, forstjóra Landspítalans, var afturkölluð í gær. Hann sagði launaþak ríkisstarfsmanna algalna hugmynd þegar samkeppni er eftir hæfu fólki.

Jóhanna svaraði því til að launaþakið sem sett var á eftir hrunið og fól í sér að dagvinnulaun ríkisstarfsmanna yrðu ekki hærri en laun forsætisráðherra ekki hafa gengið eftir. Hún taldi laun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta þau einu sem væru hærri en hennar. En um tíu ríkisstarfsmenn væru sennilega með hærri laun en hún sjálf.

„Þetta var sett á þegar við vorum að byrja á því að vinna á hruninu. Við vildum vinna á ofurlaunum hjá ríkinu. Það hefur tekist að mínu mati,“ sagði Jóhanna en benti á að lagðar hafi verið til breytingar á ákvæðinu. Hún nefndi þær til komnar þar sem laun hjá hinum opinbera séu lægri en á samkeppnismarkaði. Hún nefndi Landsvirkjun sérstaklega, auk laun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, sem hún sagði með tvöfalt eða þrefalt lægri laun en bankastjórar hinna bankanna.

„Við erum að vinda ofan af þessu,“ sagði Jóhanna.