Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir að það séu engar hugmyndir uppi um það á sínu borði að Íbúðalánasjóður hætti almennum útlánum og verði einungis heildsölubanki. Hún segir að helst myndi hún vilja að Íbúðalánasjóður yrði óbreyttur.

„Við komumst hins vegar ekki hjá því vegna ESA-málsins að aðskilja félagslega hluta sjóðsins frá almenna hlutanum,“ segir hún og tekur fram að innan ráðuneytisins sé verið að skoða hvaða lágmarksbreytingar þurfi að gera til að bregðast við niðurstöðu ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA). Jóhanna vísar þarna til þeirrar bráðabirgðaniðurstöðu ESA að núgildandi ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs sé ekki í samræmi við ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Í niðurstöðunni felst með öðrum orðum að ríkisaðstoð vegna félagslegra lána til íbúðakaupa sé ekki nægilega vel skilgreind og afmörkuð í núgildandi löggjöf.

Ummæli Jóhönnu eru ekki í samræmi við orð Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, í Viðskiptablaðinu um helgina. Þar sagði Þorgerður meðal annars: „Við erum að tala um að breyta honum [Íbúðalánasjóði] í heildsölubanka og ég held að það sé orðin tiltölulega mikil sátt um það.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .