*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 27. nóvember 2011 14:10

Jóhanna: Vinnubrögð Jóns Bjarnasonar óásættanleg

Forsætisráðherra gagnrýnir sjávarútvegsráðherra harðlega fyrir drög að nýju kvótafrumvarpi og tekur málið af honum.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að frumvarpsdrög Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, séu alfarið á hans ábyrgð. Frumvarp ráðherrans sé ekki unnið í samráði við ríkisstjórnina, og muni aldrei verða lagt fram sem stjórnarfrumvarp.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV. Drög Jóns að nýju frumvarpi um fiskveiðistjórnun hafa fallið í grýttan jarðveg stjórnarmeirihlutans og þá helst meðal þingmanna Samfylkingarinnar. Þá hefur einnig komið fram gagnrýni á Jón fyrir að hafa ekki ráðfært sig við ríkisstjórnina áður en drögin voru kynnt.

Ríkisstjórnin hefur nú tekið málið af Jóni og skipað ráðherranefnd til að fara yfir málið. Hana skipa þau Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Kvótafrumvarpið svokallaða var mikið til umfjöllunar fyrr á þessu ári og var harðlega gagnrýnt af flestum hagsmunaaðilum og öðrum þeim sem settu fram skoðun sína um frumvarpið, t.d. bönkunum.

 „Þetta vinnuskjal eða drög að frumvarpi er alfarið á ábyrgð Jóns Bjarnasonar," sagði Jóhanna í hádegisfréttum RÚV í dag.

„Jón hefur haldið allri ríkisstjórninni og þingflokkunum utan við þessa vinnu þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um að koma að þessu máli og hunsað aðkomu annarra úr stjórnarliðinu að þessu verki. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sjávarútvegsráðherra sem eru algjörlega óásættanleg og ekki boðleg í samskiptum flokkanna."

Þá sagði Jóhann að með drögum að nýju frumvarpi sé Jón kominn fjarri stefnu stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum og ljóst sé að þetta frumvarp óbreytt verði aldrei lagt fram sem stjórnarfrumvarp.