Jóhannes Jónsson, sem er kenndur við Bónus og er starfandi stjórnarformaður Haga, segir það almennan misskilning að hann eignist 10% Í Högum þegar félagið fer á markað í Kauphöll Íslands. „Það rétta er, að mér býðst að kaupa 10% hlut á sama verði og öðrum fjárfestum," segir hann í yfirlýsingu sem hann hefur sent fjölmiðlum.

Tilefnið er fréttaflutningur af skoðanakönnun MMR um afstöðu aðspurðra til þess að hann fái forkaupsrétt á 10% hlut í Högum. „Skoðanakönnun sú, sem lesa má í netmiðlum í dag, þar sem lýst er að 80,1% aðspurðra séu frekar eða mjög andvíg því að ég, Jóhannes Jónsson, starfandi stjórnarformaður Haga, fái að kaupa allt að 10% hlut í Högum af Arion banka, er vægast sagt annað viðmót en ég finn fyrir í verslunum Haga," segir í tilkynningunni. Hann eignist ekki þessi 10% heldur standi honum til boða að kaupa hlutinn á sama verði og öðrum fjárfestum.

„Ég er þakklátur fyrir þann stuðning, sem ég fæ úr öllum áttum frá fjölmörgum viðskiptavinum Haga, fólki sem kemur að máli við mig eða sendir mér línu.   Ég mun halda áfram að vinna að hag fólks í landinu með lágu vöruverði, hér eftir sem hingað til," segir í yfirlýsingu Jóhannesar.