Arion banki (áður Nýja Kaupþing) hefur móttekið tilboð frá Jóhannesi Jónssyni kaupmanni, erlendum fjárfestum og stjórnendum Haga um fjárhagslega endurskipulagningu 1998 ehf., móðurfélags Haga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en þar kemur jafnframt fram að samkvæmt tilboðinu kemur ekki til neinna afskrifta skulda 1998.

„Arion banki þarf að taka sér tíma til að meta tilboðið og bera saman við aðra kosti í stöðunni þar sem málið er flókið,“ segir í tilkynningunni.

„Það er í samræmi við þá meginreglu bankans að leita lausna á skuldavanda fyrirtækja með eigendum og stjórnendum. Niðurstöðu varðandi tilboðið er að vænta um miðjan janúar.“