Jóhannes Karl Sveinsson
Jóhannes Karl Sveinsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Núverandi innstæðutryggingakerfi er meingallað og gerir í raun lítið annað en að kosta umtalsverða peninga og skapa hugsanlega falskt öryggi.

Þetta segir Jóhannes Karl Sveinsson, hrl., í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu þar sem hann fjallar um fjármálakerfið og framtíð þess. Jóhannes Karl kemur víða við í grein sinni og fjallar meðal annars um innstæðutryggingakerfið.

Jóhannes Karl bendir á að stjórnvöldum er skylt samkvæmt EES samningnum að hafa í gildi innstæðutryggingakerfi sem skilar þeim árangri að jafnvirði 20 þúsund evra innstæðu verði tiltækt öllum innstæðueigendum ef banki verður ógreiðslufær. Það sé því ekki raunhæft sem pistlahöfundurinn Óðinn nefnir í Viðskiptablaðinu að afnema beri slíkar tryggingar „þótt taka megi undir að hin pólitíska yfirlýsing um allsherjarábyrgð á innstæðum hljóti að víkja,“ segir Jóhannes Karl.

„Á Íslandi eru þrír bankar með meginþorra allra innstæðna, ekki minna en 500 milljarða í hverjum banka,“ segir Jóhannes Karl.

„Í bankahruninu 2008 átti innstæðutryggingasjóðurinn íslenski um 20 milljarða og þótti nokkuð gott á evrópskan mælikvarða. Það var u.þ.b. þriðjungur af fjárhæð innstæðna í Sparisjóðnum í Keflavík. Getur einhver sagt mér hvernig sá sjóður átti að tryggja innstæður – hvað þá þegar fyrir liggur að langlíklegast reyni á sjóðinn í mjög umtalsverðu fjármálaáfalli?“

Jóhannes Karl segir að innstæðutryggingar séu lífæð efnahagskerfisins og við greiðsluþrot banka verði að leita allra leiða til að halda þeim æðum opnum. Það hafi tekist haustið 2008 á Íslandi þrátt fyrir mjög brotakenndar lagaheimildir og enga reynslu af slíkri aðstöðu.

„Samstillt átak við stofnun nýju bankanna, flutningur innstæðna og eigna úr gömlu bönkunum, með þátttöku starfsmanna Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og ráðuneyta auk fjölda bankastarfsmanna var að mínu mati talsvert afrek,“ segir Jóhannes Karl.

„Það er ekki víst að það heppnist aftur, enda mátti lítið bera út af á þeirri ögurstundu og sem betur fer vann hópur fólks að því máli að mestu utan hringiðu stjórnmálanna meðan kastljós fjölmiðla beindist í aðrar áttir. Af þessu þarf að draga lærdóm og setja í lög valdheimildir sem gera verkaskiptingu stjórnvalda skýra og tryggja að hægt sé að halda greiðslumiðlun í landinu og úr landi gangandi þrátt fyrir greiðsluþrot banka.“

Þá segir Jóhannes Karl að tvinna þurfi mun betur saman innstæðutryggingakerfið og önnur neyðarúrræði stjórnvalda. Leita megi fyrirmynda frá Bandaríkjunum og Kanada um það hvernig hægt sé að tryggja raunverulega vernd innstæðueigenda án áhættu fyrir almenna skattgreiðendur.

„Síðustu ár hefur verið í undirbúningi á vegum Evrópusambandsins ný tilskipun um innstæðutryggingar. Ráðgert er að hún komi til kasta Evrópuþingsins nú í haust en það er ljóst að deildar meiningar eru meðal aðildarþjóðanna um framtíðarfyrirkomulagi þessara mála. Íslendingar verða að gera upp við sig hvað þeir vilja í þessum efnum og fylgja þeim vilja eftir,“ segir Jóhannes Karl.

Hér er aðeins birtur úrdráttur úr grein Jóhannesar Karls. Hana má finna í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.