Mikilvægt er að ræða um það hvort skipta eigi upp viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi hér á landi.

Þetta segir Jóhannes Karl Sveinsson, hrl. í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu. Í grein sinni Umræður um fjármálakerfið og framtíð þess fjallar Jóhannes Karl m.a. um reikningsskilareglur, innstæðutryggingar, starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka og fleira.

„Hér á landi varð sama þróun og víða annars staðar. Við hina eiginlegu bankastarfsemi, miðlun greiðslna og að taka á móti innstæðum og lána þær út gegn aðeins hærri vöxtum, bættust allskonar verkefni sem fljótlega tóku völdin,“ segir Jóhannes Karl þegar hann fjallar um starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka.

„Hugsanlega var regluverkið og eftirlitskerfið vanbúið að taka á þeim öru breytingum sem urðu um og eftir síðustu aldamót. Við bættist eignastýring, sala á alls kyns fjármálaafurðum á borð við afleiðusamninga, miðlun verðbréfa og milliganga um kaup og sölu fyrirtækja. Þá voru bankarnir umsvifamiklir í fjárfestingum í hlutabréfum og erlendum gjaldeyri. Fjármögnun bankanna var sem kunnugt er ekki lengur bundin við innstæður og hlutafé heldur var gríðarlega mikið fé tekið að láni frá öðrum erlendum bönkum og sjóðum.“

Jóhannes Karl Sveinsson
Jóhannes Karl Sveinsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jóhannes Karl segir að samtímis hafi eignarhald bankanna flust til fárra aðila sem jafnframt voru mjög virkir á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Þessi samsetning sé áhættusöm eins og reynslan sanni.

„Áhættunni er alls ekki dreift heldur er stillt upp mjög langri röð af dóminókubbum. Og spurningin vaknar auðvitað hvort betra sé að hafa þetta öðruvísi,“ segir Jóhannes Karl.

„Þessi umræða snýst um starfsheimildir banka og hvort skilja eigi að hina eiginlegu viðskiptabankastarfsemi (sem er algjörlega nauðsynleg í nútíma samfélagi) frá fjárfestingarbankastarfsemi og öðrum skyldum greinum. Í hreinni viðskiptabankastarfsemi taka innstæðueigendur og aðrir lánveitendur „banka“ ekki áhættu af öðru en lánastarfsemi og skyldum rekstri. Komið er í veg fyrir vissa tegund hagsmunaárekstra og eftirlit og reiknisskil verða mun auðveldari viðfangs. Á móti kemur að viðskiptamenn banka (innstæðueigendur og lántakendur) svo og eigendur njóta góðs af því að fjárfestingarbankastarfsemin getur verið ábatasöm; hægt verður að greiða hærri innlánsvexti, lána út á lægri vöxtum og greiða eigendum hærri arð af eignarhlutum.“

Jóhannes Karl vísar til þess að Bandaríkjamenn héldu lengi í skiptinguna á milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, sem þeir komu á eftir kreppuna árið 1933 en slepptu tökunum aftur árið 1999.

„Margir telja að það hafi ýtt undir aukna skuldsetningu og áhættutöku á árunum sem á eftir komu,“ segir Jóhannes Karl.

„Þessa umræðu þarf að fara í gegnum hér á landi. Í hinni svonefndu Vickers skýrslu er að finna úttekt á kostum og göllum, auk tillagna að útfærslu á aðskilnaði viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Það sem er m.a. áhugavert við tillögurnar er að höfundar telja sig ekki rígbundna í EES-regluverkinu og vilja búa til kerfi sem hentar aðstæðum í heimalandinu. Á Íslandi er nú einstætt tækifæri til að taka til hendinni því aðstæður eru að mörgu leyti hagstæðar.“

Grein Jóhannesar Karls má nú finna í heild sinni HÉR .