Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, er hættur enda var skilanefnd lögð niður um áramótin í samræmi við ný lög sem samþykkt voru sl. sumar. Slitastjórn tekur yfir verkefni skilanefndar og taka Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, og Theodór S. Sigurbergsson, löggiltur endurskoðandi, til starfa í slitastjórninni. Þeir voru með Steinari Þór í skilanefndinni.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson
Jóhannes Rúnar Jóhannsson
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Slitastjórn Kaupþings óskaði eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að fjölgað yrði í slitastjórninni og samþykkti héraðsdómur þá beiðni.  Eftir þessar breytingar er slitastjórn Kaupþings skipuð eftirgreindum aðilum: Davíð B. Gíslasyni, Feldísi Lilju Óskarsdóttur, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni og Theodór S. Sigurbergssyni.

Flýta slitameðferð

Á heimasíðu Kaupþings segir orðrétt: „Kröfuhafar Kaupþings hafa frá upphafi lagt áherslu á að endir verði bundinn á slitameðferð Kaupþings eins fljótt og kostur er. Fjölgun í slitastjórn úr tveimur í fjóra er til þess fallin að styrkja slitastjórnina í þeim verkefnum sem framundan eru, m.a. við endurskipulagningu á rekstri Kaupþings og áfrahaldandi meðferð og varðveislu eigna Kaupþings. Með breytingunni er jafnframt tryggt að samfella verði í starfsemi Kaupþings óháð þeim breytingum sem orðið hafa.“