Matvöruverslunin Iceland mun opna aðra verslun sína þann 1. desember nk. Verslunin mun opna á Fiskislóð 3, þar sem Europris er nú til húsa.

Þetta staðfestir Jóhannes Jónsson, eigandi Iceland á Íslandi, í samtali við Viðskiptablaðið. Í fyrradag var tilkynnt um að til stæði að loka öllum þremur verslunum Europris hér á landi og þar fara þessa dagana fram rýmingarútsölur.

Viðskiptablaðið greindi frá því í maí sl., fyrst fjölmiðla, að Jóhannes hygðist snúa aftur á íslenskan matvörumarkað og opna verslanir undir merkjum Iceland. Fyrsta verslunin opnaði síðan í Engihjalla í Kópavogi í lok júlí sl., þar sem 10-11 var áður til húsa.

Í þetta sinn færir Jóhannes sig þó á nokkuð nær sínum gamla vinnustað því beint á móti Europris á Fiskislóð stendur verslun Bónus. Jóhannes, sem frá árinu 1989 hefur gengið undir viðurnafninu Jóhannes í Bónus, var sem kunnugt er stofnandi verslunarinnar.

Litlu neðar í götunni, reyndar bara einu bílastæði frá Europris, má finna stóra verslun Krónunnar.

Iceland Verslunn
Iceland Verslunn
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)