Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, hefur ákveðið að höfða dómsmál á hendur íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu dómsmálaráðherar og Alþingis við skipun í embætti dómara við Landsrétt að því er kemur fram í bréfi Jóhannesar til fjölmiðla. „Ég, sem umsækjandi um embætti dómara við Landsrétt, hæstaréttarlögmaður og borgari í þessu landi, get ekki sætt mig við að réttur sé brotinn á einstaklingum, eins og hér háttar til, án þess að bregðast við. Háttsemi af þessu tagi á ekki að líðast,“ segir Jóhannes.

Hægt er að lesa bréf Jóhannesar Rúnars í heild sinni hér:

Undirritaður sótti, í góðri trú og á faglegum forsendum, um embætti dómara við Landsrétt, sem auglýst var laust til umsóknar í febrúar sl.

Dómsmálaráðherra ákvað hinn 29. maí sl. að ganga framhjá umsókn minni þrátt fyrir að sérstök fagleg dómnefnd, sem skipuð er af ráðherra og starfar samkvæmt lögum, hefði komist að þeirri niðurstöðu að ég væri meðal þeirra 15 umsækjenda sem nefndin taldi hæfasta til að gegna embætti dómara við Landsrétt.  Meirihluti Alþingis staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra þann 1. júní sl.

Stjórnskipun lýðveldisins byggir á þrígreiningu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Með ákvörðunum sínum eru tvær greinar ríkisvaldsins, framvæmdavaldið , hér dómsmálaráðherra, og löggjafarvaldið , Alþingi, að hlutast til um skipan þeirrar þriðju, dómsvaldsins . Stjórnvöld eru bundin af lögum og ákvarðanir þeirra verða að eiga sér stoð í lögum.

Það er valdníðsla þegar stjórnvald misnotar opinbert vald með þeim hætti að ólögmæt og ómálefnaleg sjónarmið, svo sem vinátta, flokkshagsmunir eða óvild, ráða ákvörðun þess. Í bók Páls Hreinssonar, hæstaréttardómara og dómara við EFTA dómstólinn, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, segir á bls. 126: „Að baki sérhverri stjórnvaldsákvörðun verða að búa málefnaleg sjónarmið. Það er ótækt að geðþótti eða hrein tilviljun ráði niðurstöðu máls. Af þessum sökum eru stjórnvöld að lögum bundin við að byggja matskenndar ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Þess vegna eru málefnaleg sjónarmið aðeins lögmæt.“

Fyrir liggur að meta þarf hvort málsmeðferð við skipun dómara við Landsrétt hafi verið lögmæt eða ólögmæt, þar með hvort ákvörðun dómsmálaráðherra um að víkja frá niðurstöðu hinnar faglegu dómnefndar hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum eða ekki.

Dómsmálaráðherra bar skilyrðislaust að velja þá 15 einstaklinga sem hæfastir voru meðal umsækjenda í embætti dómara við Landsrétt, án tillits til kynferðis, skoðana eða stöðu.

Málsmeðferð dómnefndarinnar, þar sem umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt voru metnir innbyrðis, var mjög yfirgripsmikil, fagleg og vönduð og tók margar vikur. Óháð því hvort niðurstaða nefndarinnar um það hverjir teldust hæfastir meðal umsækjenda var efnislega rétt eða röng, eða hvort menn eru sammála eða ósammála henni, þá fól mat dómnefndarinnar í sér, að umsækjendur voru, allir sem einn, metnir á jafnréttisgrunni, af sama fólkinu, á sama tíma og umfram allt á sömu forsendum.

Það hefði átt að vera grundvallarforsenda fyrir ákvörðun dómsmálaráðherra, um að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar, að ákvörðun hennar og aðdragandi væri jafn vandaður og málsmeðferð og ákvörðun nefndarinnar. Ráðherrann þurfti auk þess að fylgja lögum við ákvörðun sína og þar með að byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum. Hafi ráðherrann ekki gert það þá er ákvörðun hennar ólögmæt.

Færa má fyrir því sterk rök að málsmeðferð dómsmálaráðherra hafi verið andstæð lögum og að réttur hafi verið brotinn á þeim umsækjendum sem hún ákvað að fella brott af lista dómnefndarinnar.

Rökstuðningur dómsmálaráðherra fyrir því að víkja frá niðurstöðu nefndarinnar stenst auk þess enga efnislega skoðun. Rökstuðningur ráðherrans er almenns eðlis, ógagnsær og óljós. Hvergi er sem dæmi vikið að því hvers vegna ráðherra taldi rétt að ganga framhjá þeim tilteknu fjórum umsækjendum sem hún gerði né hvers vegna hún kaus að velja nákvæmlega þá fjóra umsækjendur í þeirra stað sem hún valdi, fremur en til að mynda aðra umsækjendur. Rétt er að undirstrika að sjónarmið um að jafna stöðu karla og kvenna voru ekki meðal þeirra raka sem dómsmálaráðherra vísaði til í rökstuðningi sínum og ættu þar af leiðandi ekki að koma til frekari skoðunar í þessu samhengi.

Hefði dómsmálaráðherra byggt á sjónarmiðum um kynjajafnrétti við ákvörðun sína, sem hún gerði ekki samkvæmt framansögðu, þá hefði ráðherrann engu að síður fyrst þurft að færa fullnægjandi rök fyrir því að um jafn hæfa umsækjendur væri að ræða, eftir að hafa sannreynt það á áreiðanlegan og vandaðan hátt. Þá fyrst gat reynt á kynjasjónarmið í þessu samhengi en fyrr ekki.

Samkvæmt lögum um dómstóla getur dómsmálaráðherra ekki skipað í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur er einn eða samhliða öðrum, nema Alþingi heimili slíkt.

Alþingi bar að kynna sér forsendur dómsmálaráðherra fyrir því að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar, áður en ákvörðun var tekin og fullvissa sig um að forsendur ráðherrans væru málefnalegar og réttar. Alþingi var kunnugt um marga þeirra annmarka sem voru á málsmeðferð og rökstuðningi dómsmálaráðherra fyrir ákvörðun hennar um að víkja frá niðurstöðu dómnefndarinnar, áður en atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi um málið. Meirihluti Alþingis ákvað þrátt fyrir það að staðfesta tillögur dómsmálaráðherra.

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður:

„Það er sannfæring mín að málsmeðferð dómsmálaráðherra og Alþingis við val á umsækjendum til skipunar í embætti dómara við Landsrétt hafi brotið í bága við lög. Ég trúi því ekki að þriðja grein ríkisvaldsins, dómsvaldið, muni láta það viðgangast átölulaust.

Ákvörðun dómsmálaráðherra um að víkja frá niðurstöðum faglegrar dómnefndar um hæfni umsækjanda um embætti dómara við Landsrétt var hvorki tekin með þeim hætti, né á grundvelli þeirra forsendna, sem lög áskilja. Alþingi hefði átt að bregðast við og hafna breyttri tillögu ráðherrans. Meirihluti Alþingis brást því hlutverki sínu.

Ég, sem umsækjandi um embætti dómara við Landsrétt, hæstaréttarlögmaður og borgari í þessu landi, get ekki sætt mig við að réttur sé brotinn á einstaklingum, eins og hér háttar til, án þess að bregðast við. Háttsemi af þessu tagi á ekki að líðast.

Ég hef því tekið ákvörðun um að höfða dómsmál á hendur íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu dómsmálaráðherra og Alþingis við skipun í embætti dómara við Landsrétt.“

Kópavogi, 14. júní 2017,

Jóhannes Rúnar Jóhannsson