Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., lögmaður Ívars Guðjónssonar, fyrrverandi starfsmanns Landsbankans, segir hann neita alfarið sök. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um efnisatriði málsins eða því hvað það er í rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málefnum Landsbankans sem snýr að Ívari. Hann var áður forstöðumaður eigin viðskipta bankans.

Héraðsdómur Reykjavíkur mun í dag taka afstöðu til beiðna um að Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi forstjóri Landsbankans, og Ívar verði úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Jóhannes vildi ekki tjá sig um á hvaða forsendum beiðnin byggir í tilfelli Ívars, er Viðskiptablaðið ræddi við hann fyrr í dag.

Ívar og Sigurjón voru báðir í fangageymslu lögreglu síðastliðna nótt, eftir að dómari ákvað að taka sér frest til að taka afstöðu til beiðni sérstaks saksóknara um gæsluvarðhald. Úrskurður verður kveðinn upp klukkan 14:00 í dag.

Rannsókn sérstaks saksóknara snýr öðru fremur að fjórum þáttum. Meintri markaðsmisnotkun Landsbanka Íslands með hlutabréf útgefin af bankanum. Lánveitingum til félaganna Hunslow S.A., Bruce Assets Limited, Pro-Invest Partnes Corp og Sigurðar Bollasonar ehf. til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum. Kaupum Landsbanka Íslands á lánasafni Landsbankans í Luxemburg, og kaupum á hlutabréfum í bankanum af hálfu félaga sem héldu um kauprétti starfsmanna Landsbankans og lánveitingum til þeirra félaga.