Félagið Apogee seldi hlutabréf í færeysku verslanakeðjunni SMS fyrir 937 milljónir króna árið 2012. Félagið átti 50% hlut í SMS, sem rekur tíu verslanir í Færeyjum. Morgunblaðið rifjar upp að Jóhannes Jónsson, sem lést í sumar, hafi sagt við blaðið í fyrra að hlutur félagsins í SMS hafi að mestu verið skuldsettur. Jóhannes keypti hlutinn í SMS fyrir þremur árum á 450 milljónir króna af Arion banka. Verðið þá var í samræmi við mat sérfræðinga bankans á virði hlutabréfa í versluninni.

Morgunblaðið bendir jafnframt á eins og Viðskiptablaðið gerði í fyrra að eignarhaldið á Apogee sé óljóst. Apogee er skráð á Íslandi en er í eigu félagsins Moon Capital sem skráð er í Lúxemborg. Ýmist Jóhannes eða tengdardóttir hans Ingibjörg Pálmadóttir, kona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eru sagðir eigendur þess félags.

Morgunblaðið bendir á að Ingibjörg hafi nýtt Moon Capital um nokkurt skeið til að halda utan um bréf sín í 365 miðlum.