Lagasmiðurinn og söngvarinn John Legend hefur selt útgáfurétt að tónlistarsafni sínu til fjárfestingafélagsins KKR Credit Advisors og útgáfufélagsins BMG Rights Management, eins og kemur fram í grein hjá Bloomberg . BMG hefur nú þegar samið við listamenn á borð við Rolling Stones, Quincy Jones og Tina Turner. Jafnframt hefur BMG unnið með Legend frá árinu 2010, þegar félagið keypti útgáfufélag listamannsins, Cherry Lane Music Publishing.

Um er að ræða allar tekjur sem tengjast tónlistarsafni Legend á tímabilinu 1. desember 2004 til 1. janúar 2021, auk útgáfuréttar á verkunum. Ekki er greint frá söluupphæðinni.

John Legend, sem heitir réttu nafni John Roger Stephens, fylgir fordæmi annarra tónlistarmanna sem hafa selt útgáfurétt að tónlistarsafni sínu. Bruce Springsteen seldi nýlega útgáfurétt að tónlistarsafni sínu til Sony fyrir um 500 milljónir dala eða 65 milljarða króna. Lög David Bowie voru seld til Warner á 250 milljónir dala eða um 33 milljarða króna nú á dögunum. Auk þess hafa listamenn á borð við Bob Dylan, Neil Young, David Guetta og hluti af hljómsveitinni Fleetwood Mac selt útgáfuréttinn að tónlistarsafni sínu að undanförnu.