John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, segist ekki hrifinn af hugmyndum um 15 milljarða Bandaríkjadala ríkisstuðning við bandarískan bílaiðnað til viðbótar en vildi hins vegar ekki heldur útiloka slíkar björgunaraðgerðir.

Í viðtali á NBC sjónvarpsstöðinni var McCain spurður um álit sitt á þeirri hugmynd að stjórnvöld útveguðu 15 milljarða Bandaríkjadala til að hjálpa bandarískum bílaiðnaði að lifa af fjármálakreppuna. McCain benti á að bandaríska þingið leyfði nýlega 25 milljarða lánveitingu á afar lágum vöxtum til handa bílabransanum, til uppbyggingar og þróunar sparneytinna bíla.

„Sjáum hvert þeir 25 milljarðar koma okkur til að byrja með,“ sagði McCain.

Ef fram heldur sem horfir verður nokkurra mánaða bið á að 25 milljarða lánveitingin skili sér til bílframleiðenda þar sem enn á eftir að semja reglur um lánveitingarnar. Yfirhagfræðingur Rannsóknarstofnunar bíliðnaðarins vestan hafs (Center for Automotive Research) segir þörf á 15 milljarða innspýtingu fjármagns í bílabransann, með því eina skilyrði að fyrirtæki eyði þeim peningum í Bandaríkjunum, eigi General Motors, Ford og Chrysler að lifa kreppuna af.

Efnahagsráðgjafi McCain hefur hins vegar lagt á það áherslu að stjórnvöld komi 25 milljarða dala lánveitingum í hendur lántakenda sem fyrst. „Forgangsverkefnið ætti að vera að ljúka því af sem fyrst, ekki að taka 18 mánuði í það eins og virðist vera stefnan núna,“ sagði hann.

Reuters greindi frá þessu.