John Paul DeJoria hefur fengist við fjölbreytt viðskipti á ferli sínum. Hann tók þátt í stofnun hársnyrtivöruframleiðandans Paul Mitchell og stofnaði einnig The Patron Spirits Company sem framleiðir tekíla og hefur fjárfest í næturklúbbakeðju, olíulindum, demantafyrirtækjum, Marquis and Carver bátaframleiðendunum auk þess sem hann á Harley Davidson umboð. DeJoria ólst upp við sára fátækt hjá einstæðri móður í Los Angeles og fór að vinna til að hjálpa fjölskyldu sinni níu ára gamall. Hann útskrifaðist frá John Marshall High School árið 1962 og var svo í sjóher Bandaríkjanna í tvö ár.

John Paul DeJoria er staddur hér á landi í fríi ásamt fjölskyldu sinni og ákvað að nýta tækifærið og hitta eiganda Arctic Trading Company sem er heildsala sem selur Paul Mitchell hárvörur til hársnyrtistofa hér á landi, ásamt blaðamönnum.

Bjó í bílnum

Spurður um erfiða æsku sína segir DeJoria að hann hafi ekki verið mjög meðvitaður um slæma fjárhagsstöðu fjölskyldunnar sem gerði aðstæðurnar auðveldari.

En hvernig komst maður sem einungis hafði menntaskólapróf og hafði alist upp í fátækt í 542. sæti yfir ríkustu jarðarbúa samkvæmt úttekt Forbes?

„Eftir að hafa verið í sjóhernum fór ég að vinna við ýmis störf, ég seldi meðal annars alfræðiorðabækur um tíma. Þegar ég var orðinn 26 ára gamall fór ég að vinna sem dreifingaraðili fyrir útgáfufyrirtækið Time Inc. Eftir ár þar spurði ég yfirmann minn sem var varaforseti fyrirtækisins hvernig ég gæti komið mér á framfæri og orðið varaforseti. Hann sagði mér að þar sem ég væri ekki með háskólapróf og einungis búinn að vinna hjá fyrirtækinu í eitt ár gæti ég talað við hann aftur eftir tíu ár. Mér leist ekki á blikuna, gat ekki hugsað mér að vinna þarna í tíu ár og ákvað því að finna mér aðra vinnu. Ég fór til atvinnuráðgjafa sem fann fyrir mig vinnu við að selja hárvörur, en hann benti mér á tækifærin sem væru í snyrti- og hárvörubransanum fyrir þá sem vildu koma sér á framfæri. Ég byrjaði á að selja sjampó og aðrar hárvörur hjá Redken árið 1971 og varð fljótlega orðinn stjórnandi yfir tveimur söludeildum landsins. Hins vegar var ég rekinn úr því starfi eftir fimm ár af því að ég var ósammála stjórnunarháttum Redken.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .