Bandaríska stórfyrirtækið Johnson & Johnson mun greiða 2,2 milljarða dala, andvirði um 270 milljarða króna, til bandarískra stjórnvalda vegna brota á lyfjalöggjöf.

Fyrirtækið er sektað fyrir misvísandi markaðssetningu og kynningu á þremur lyfjum, geðklofalyfjunum Risperdal og Invega og hjartalyfinu Natrector. Var Risperdal t.d. sagt virka í meðferð við elliglöpum og Natrector var sagt virka gegn vægari hjartasjúkdómum en leyfi lyfjaeftirlitsins tók til.

Uppljóstrarar sem komu upp um þessa hegðan fyrirtækisins munu samtals fá 167,7 milljónir dala í sinn hlut, en bandarísk löggjöf gerir ráð fyrir slíkum verðlaunum til þeirra sem koma upp um misvísandi markaðssetningu af þessu tagi.