„Ég er leggja lokahönd á grillbók sem ég er búinn að vera að vinna að í um fjögur ár,“ segir Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel. Í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið bætir hann við að hann hafi aldrei átt skrifborð eða skrifstofu þótt hann hafi rekið fyrirtæki í tæpa tvo áratugi.

„Þetta verður með stærri matreiðslubókum sem hefur verið skrifuð á Íslandi, sem hvorki er þýdd né staðhæfð, tæpar 400 blaðsíður. Ég ætla að gefa hana út sjálfur og tek þannig alla áhættuna sjálfur. Ég vil ekki að einhver annar tapi á mér ef hún selst ekki. Ég tek höggið sjálfur ef illa gengur.“

Og hagnast þá líka sjálfur ef hún selst vel, skýtur blaðamaður inn í.

„Já, vissulega. En áhættan er mín frá upphafi. Ég þarf að kynna bókina, auglýsa hana o.s.frv.“

En sástu fyrir þér, þegar þú útskrifaðist sem bakari, að einn daginn myndirðu reka bakarí, fimm verslanir, vera sjónvarpskokkur, skrifa bækur og nú brátt verða bókaútgefandi?

„Nei, en þegar þú spyrð þá rifjast upp fyrir mér að konan mín talaði oft um að hún sæi á mér að ég myndi gera meira en að reka bakarí,“ segir Jóhannes hugsi.

Ítarlegt viðtal er við Jóa Fel í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .