Í umfjöllun um veiði í Viðskiptablaðinu í gær er sagt frá þvi að farið sé að ganga vel hjá Þresti Elliðasyni í Jökulsá á Dal, sem er nýjasta laxveiðiá landsins. Þar er hann er búinn að koma þar upp öflugu ræktunarstarfi og er með mikla uppbyggingu með veiðihúsi og öðru. Er þessi uppbygging þegar farin að skapa vinnu fyrir fólkið í sveitinni.

„Ég held að það hafi komið níu laxar í morgun," sagði Þröstur þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann sl. föstudag. "Það eru komnir eitthvað rétt um 200 laxar á land í sumar. Það er þó mest úr hliðaránum sem renna í Jökulsá."

Jökulsá á Dal, eða Jökla, er nú orðin tær bergvatnsá, en áður var hún kolmórauð jökulá sem hefur sem kunnugt er verið virkjuð við Kröflu. Var hún fyrir stíflugerðina talin gruggugasta jökulá landsins og bar fram um 120 tonn af leir, sandi og möl á klukkustund. Hún er lengsta á Austurlands eða um 150 kílómetrar á milli ósa og Brúarjökuls. Nú er Jökla nýjasta laxveiðiá landsins, en Þröstur segir að Íslendingar hafi þó lítið bókað enn sem komið er. - "Ég er aðallega með útlendinga."

- Menn hafa væntanlega ekki spáð í það fyrir nokkrum árum að einhver ætti eftir að koma upp laxveiði í Jöklu?

„Nei, menn hefðu talið að maðurinn væri örugglega bilaður. Þetta er mikið svæði en við erum þó aðallega hér í neðri hlutanum. Það komu samt þrír laxar uppi í sjálfum Jökuldalnum í gær. Við höldum að laxinn geti farið upp úr öllu, það er ekkert því til fyrirstöðu þó leiðin sé löng. Við erum þó helst að veiða í Mið-Jökuldalnum.

Þá höfum við verið að sleppa í ána og höfum við tekið klak til þess úr náttúrulegum stofni á svæðinu. Þetta er nú allt upp á við. Ætli við löndum ekki um 300 fiskum á þessu svæði þegar upp verður staðið í haust þó þetta hafi ekki verið stundað mjög stíft í sumar."

Þröstur er líka búinn að koma upp veglegu veiðihúsi rétt við Kaldá í Jökulsárhlíð. „Ég keypti félagsheimilið sem heitir Hálsakot og breytti því í veiðihús. Þetta er því allt alvöru dæmi," segir Þröstur Elliðason.