Hollenski bankinn Rabobank gaf út jöklabréf að nafnvirði 13 milljarðar króna fyrir helgi. Útgáfan er til eins árs og ber 10,25% vexti.

Bréfin voru seld á yfirverði og er ávöxtunarkrafan því nokkuð lægri. 27,5 milljarðar falla á gjalddaga í september, þar af 18 milljarðar næsta föstudag, en það eru bréf sem Norræni fjárfestingarbankinn gaf út.

Þá eru 4,5 milljarðar á gjalddaga mánudaginn 15. september og var útgefandi þeirra bréfa austurríska ríkið.

Þeir 13 milljarðar sem gefnir voru út á föstudaginn sl. eru stærsta útgáfan í sumar.

Engin bréf voru gefin út í júní, og þrír milljarðar í júlí. Þá voru gefnir út tveir milljarðar hinn 7. ágúst.

Útgáfan frá júní og til dagsins í dag, 18 milljarðar, rétt slagar því upp í þá upphæð sem er á gjalddaga í þessari viku. Um 300 milljarðar eru á gjalddaga á næstu tólf mánuðum og haustið er litað af stórum gjalddögum.

Um 45 milljarðar eru á gjalddaga í október, og samtals 14 milljarðar í nóvember og desember. Þá eru tæpir 50 milljarðar á gjalddaga í janúar, 47 milljarðar í febrúar og 37 milljarðar í mars 2009.

Frá og með þessari viku og fram til júní 2009 eru rúmir 250 milljarðar á gjalddaga, eða sem nemur tæpum fimmtungi af landsframleiðslu. Rabobank hefur verið stórtækastur í útgáfu jöklabréfa og um 22% af útistandandi bréfum eru útgefin af hollenska bankanum.