TD Securities, sem verið hefur einna umsvifamest í jöklabréfunum hér á landi, sendi út póst fyrir helgina. Þar er lýst áhyggjum af ástandinu á Íslandi sem gæti leitt til afsagnar ríkisstjórnarinnar. Lögð er áhersla á að mjög brýnt sé að ný ríkisstjórn fullvissi fjárfesta um að ekki sé ætlunin að fara ,,suður-amerísku” leiðina [sem gengur út á það að standa ekki við erlendar lánaskuldbindingar].

Í póstinum er greint frá átökum mótmælenda og lögreglu í vikunni og sagt að hér sé um mjög óvenjulega atburði að ræða á Íslandi sem fá söguleg fordæmi séu fyrir. Svo virðist sem mótmæli almennings vegna þess hvernig tekið var á hruni fjármálakerfisins hafi magnast svo mjög að ríkisstjórnin gæti riðað til falls. Heimildir á Íslandi hermi að líklega verði mynduð bráðabirgðastjórn og síðan verði kosningar innan nokkurra mánaða. Sennilega muni pólitískt vald færast til vinstri sem kunni að boða slæm tíðindi fyrir umhverfi efnahagslífsins.

TD Securities segir að fyrir erlenda fjárfesta myndi slíkt auka líkurnar á neikvæðri þróun í efnahags- og fjármálastefnu. Bent er á að stjórnmálaöflin lengst til vinstri hafi lýst vilja til að semja upp á nýtt um efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og um IceSave samkomulagið. Skuldir Íslands hafi aukist úr 20% af þjóðarframleiðslu í 100%, aðallega vegna skuldbindinga vegna IceSave. Sennilega myndi verða freistandi fyrir einhvern stjórnmálamanninn að krefjast þess að ekki verði staðið við þessar skuldbindingar sem aftur hefði víðtæk áhrif á aðrar eignir í íslenskum krónum.

Bent er á í póstinum að skuldatryggingaálag ríkisins hafi verið óbreytt síðustu vikurnar. Gengi íslensku krónunnar gagnvart evru utanlands sé 210-220 ISK á meðan gengið á Íslandi sé í kringum 165 ISK. Meðan vaxandi hagstæður vöruskiptajöfnuðum ætti að styrkja krónuna innanlands gæti óhagstæð pólitísk þróun veikt gjaldmiðilinn, sérstaklega erlendis, segir TD Securities.