Fyrirtækið Into the Glacier, býður ferðamönnum upp á ferðir djúpt inn í Langjökul. Hefur starfsemin gengið vonum framar í sumar að mati Hjalta Rafns Gunnarssonar, markaðstjóra fyrirtækisins.

Farið er með ferðafólk upp á jökulinn, í 1,260 metra hæð, þar sem að farið er með fólk inn í jökul og gengið er inn í 550 metra löng ísgöng. Þau ganga í allt að 40 metra undir yfirborði jökulsins. Lokahnykkur ferðarinnar er að standa í botninum á 40 metra djúpri jökulsprungu og horfa nokkur hundruð metra inn eftir henni.

Jöklaferðir allan ársins hring

„Ísgöngin opnuðu einungis í júní í fyrra“ segir Hjalti í samtali við Viðskiptablaðið. Fyrirtækið er nýtt - en þau hafa fundið fyrir breytingu milli ára. „Það er aukning á ferðum og við höfum þurft að bæta við nýjum bíl. Fjölgunin á ferðamönnum gerir lífið auðveldara“ segir Hjalti. Hann tekur jafnframt fram að sveiflur milli árshluta séu minni og að fyrirtækið hafi upphaflega stefnt að því að hafa einungis ferðir yfir sumartímann, en fari nú upp á og inn í jökul allan ársins hring. Fyrirtækið stefnir einnig að því að fara þrjár ferðir á dag í vetur, en vegalengdin verður lengri vegna snjós á vegum.

Into the Glacier tekur einnig að sér sérferðir þar sem að betri borgandi ferðamenn greiða fyrir aukna þjónustu. "Við erum að fá fleiri sérhópa sem vilja til dæmis koma í þyrlum, vélsleðum eða súper jeppum og vilja aukna þjónustu, t.d. veitingar og söngatriði inn í jöklinum" segir Hjalti.

„Þetta er fólk sem kann sitt fag“

Aðspurður að því hvort að fyrirtækið hafi lent í nokkrum vandræðum þá tekur Hjalti fram að: „Það hefur oft verið uppselt hjá okkur, það er svo mikil eftirspurn. Svo getur stundum verið erfitt að fara upp á jökul í öllum veðrum.“ Hann tekur þó fram að það sé ótrúlegt hversu vel fallið starfsfólkið er í að vinna í slíkum aðstæðum. „Þetta er fólk sem kann sitt fag“ segir Hjalti.

Borgarfjörðurinn og svæðið í kring er í mikilli uppbyggingu að sögn Hjalta og telur hann að Vesturlandið sé að verða meira aðdráttarafl. Hótel Húsafell hafi hjálpað mikið til og telur hann það jákvæða þróun að það séu að verða til fleiri áfangastaðir fyrir erlenda ferðamenn.