Jöklar-Verðbréf hafa sagt upp aðild sinni að hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum Kauphallar Íslands. Jónas Dalberg, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að ástæða þessa sé hversu dýr aðildin sé, einkum fyrir fyrirtæki sem ekki er stærra en Jöklar eru.

Jónas Dalberg.
Jónas Dalberg.

„Við munum áfram halda áfram að stunda viðskipti á íslenska markaðnum eins og við höfum gert, en munum gera það í gegnum aðra aðila að Kauphöllinni. Aðild að Kauphöllinni sjálf er dýr, en svo skiptir líka máli að við þurfum að vera með ábyrgðir hjá banka, þegar við eigum viðskipti sem aðili að Kauphöllinni, og það er ekki síður dýrt.“

Jónas segir að vel sé hugsanlegt að Jöklar verði aftur aðili að Kauphöllinni þegar fram líða stundir. „Við munum bara sjá til. Við höfum gengið úr skugga um að ekkert mál sé að snúa til baka, enda erum við með öll leyfi hjá FME og öll skilyrði fyrir aðild eru uppfyllt. Við þurftum bara að ná rekstrarkostnaðinum niður.“

Jöklar-Verðbréf er í eigu Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja, Festu lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs Bænda og á hver sjóður þriðjungshlut í fyrirtækinu.