Jökull Heiðdal Úlfsson hefur verið ráðinn forstöðumaður mannauðs hjá Arion banka.

Jökull hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 2002, nú síðast frá árinu 2012 sem forstöðumaður straumlínustjórnunar á þróunar- og markaðssviði, þar sem hann veitti forystu teymi sérfræðinga við innleiðingu straumlínustjórnunar.

Áður var Jökull forstöðumaður í eignastýringu bankans. Hann er viðskiptafræðingur að mennt en hefur auk þess lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Eiginkona Jökuls er Guðrún Valborg Björgvinsdóttir og saman eiga þau þrjú börn.

Mannauðsdeild er ný deild innan bankans, sem heyrir beint undir bankastjóra. Hún mun sjá um starfsmannaþjónustu og straumlínustjórnun bankans. Hlutverk mannauðsdeildar verður að styðja við jákvæðar breytingar í fyrirtækjamenningu bankans með áherslu á stöðugar umbætur í starfseminni.