Jökull H. Úlfsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sjóðstýringarfélagsins Stefnis. Jökull mun taka við starfinu af Flóka Halldórssyni og hefja störf þann 1. apríl. Flóki hefur verið framkvæmdastjóri félagsins síðastliðin 10 ár. Hann lætur af störfum að eigin ósk og mun taka sæti í stjórn Stefnis á aðalfundi sem haldinn verður 18. mars.

Jökull hefur starfað á fjármálamarkaði undanfarin 24 ár. Á árunum 2002 til 2012 starfaði hann við eignastýringu hjá Arion banka og forverum hans. Hann leiddi innleiðingu straumlínustjórnunar hjá bankanum á árunum 2012 til 2015 eða allt þar til hann tók við sem forstöðumaður mannauðs bankans.

Jökull hefur setið í stjórn Stefnis frá árinu 2014. Jökull er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Undanfarin 10 ár hafa verið viðburðarík í sögu Stefnis og einkennst af markvissri og árangursríkri uppbyggingu sem leidd hefur verið af Flóka Halldórssyni. Þó hann kjósi nú að leita á ný mið, þá er það ánægjulegt að hann hefur þekkst boð um að taka sæti í stjórn Stefnis á næsta aðalfundi og mun félagið því áfram njóta hans þekkingar og reynslu,“ segir Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarformaður Stefnis.

„Fyrir hönd Stefnis vil ég þakka Flóka hans mikla framlag til félagsins á þessum umbrotatímum, en persónulega fyrir einstaklega ánægjulegt og árangursríkt samstarf í heilan áratug. Ég vil jafnframt bjóða Jökul velkominn til starfa og er þess fullviss að hans víðtæka reynsla muni nýtast félaginu vel til frekari uppbyggingar á komandi árum.“

Um Stefni:

Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 340 milljarða króna í virkri stýringu. Hlutverk félagsins er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Stefnir þjónar jafnt einstaklingum sem fagfjárfestum. Félagið var stofnað árið 1996.

Hjá Stefni starfa um 20 sérfræðingar í fjórum teymum við stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða. Einnig stýrir félagið eignum nokkurra samlagshlutafélaga sem stofnuð hafa verið í kringum framtaksfjárfestingar.