Jökull ÞH, áður Nanok, hefur að undanförnu verið á grálúðunetum og hefur gangurinn í veiðunum verið ágætur þótt aflinn mætti vera meiri, að sögn Sigurðar Helga Ólafssonar, útgerðarstjóra GPG Seafood á Húsavík sem gerir skipið út frá Raufarhöfn. Það landar aflanum hins vegar á Húsavík þar sem hann er frystur.

GPG keypti skipið, sem þá hét Nanok af Arctic Prime Fisheries á Grænlandi á síðasta ári. Skipið er smíðað 1996 og er 45x11 metrar á lengd og breidd. Eftir að kaupin gengu í gegn var skipt um aðalvél í skipinu og sett upp nýtt kælikerfi. Jökull er breiðara skip og með mun betri aðbúnaði fyrir veiðar, vinnslu og áhöfn en Hörður Björnsson ÞH sem nú hefur verið lagt. Sá var smíðaður 1964 í Noregi og lengdur tvisvar, 1973 og 1986.

Nóg af grálúðu

„Við erum í raun bara að prófa hann á netum og breyttum honum síðasta vor úr línubát í netabát. Þessi breyting hefur gengið mjög vel. Miðað við hvernig þetta hefur farið af stað hjá okkur reikna ég með því að það verði áframhald á þessu. Við tökum upp netin í haust og förum þá á línuveiðar aftur og svo vonandi aftur á grálúðu eftir áramótin. Með þessu móti verða næg verkefni fyrir skipið,“ segir Sigurður Helgi.

Grálúðan er stærstum hluta sótt úti fyrir Vestfjörðum en líka við Grímsey og þar í kring. Einnig hefur verið grálúða fyrir austan land en mesta veiðin hefur verið fyrir vestan. Sigurður Helgi segir ljóst af öllu að nóg er af grálúðu en veiðarnar ráðast mikið af sjólagi og æti í sjónum. Menn séu að mokveiða eina vikuna og fá svo kannski minna þá næstu.

Fryst um borð á næsta ári

Lúðan hefur verið sporðskorin um borð og komið með hana þannig í land á  Húsavík þar sem hún er síðan heilfryst. Stefnt er að því að hefja frystingu um borð í skipinu á næsta ári. Ein af stóru breytingunum sem ráðist var í eftir kaupin á Jökli var fara úr freonkerfi yfir í ammóníakskerfi og hefur kerfið virkað mjög vel í prófunum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hefja frystingu innan tíðar um borð í skipinu.