Það þarf ekki að keyra lengi inn Eyjafjörðinn þar til við blasir hús þar sem jólaandinn er ríkjandi allt árið um kring. Þetta er Jólagarðurinn þar sem jólin eru haldin í sautjánda sinn núna í ár. Umhverfis jólahúsið er garður með óskabrunni og ævintýraturni.

Hjónin Benedikt Ingi Grétarsson og Ragnheiður Hreiðarsdóttir hafa rekið Jólagarðinn frá upphafi með aðstoð barna sinna. Benedikt segir að þeim hafi dottið þessi vitleysa í hug þegar þau voru þreytt seint um kvöld og segir þau vera mikið jólafólk. „Annars væri ekki hægt að vera í þessu, maður þarf að hafa ansi gaman af jólunum til þess að standa í svona.“

Í jólahúsinu fæst næstum allt sem tengist jólum og gestir þar eru um 40-50 þúsund á ári. Í tímans rás hefur erlendum gestum fjölgað og Benedikt segir Íslendinga vera duglega að kynna staðinn. Það er tvennt sem Jólagarðurinn er einkum þekktur fyrir; sérreykt hangikjöt, sem fólk lætur senda sér víða um land, og íslensku jólasveinarnir þrettán.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.