Biskup Íslands og Páfi rómversk kaþólsku kirkjunnar í Róm voru meðal trúarleiðtoga sem fluttu ávörp um jólin. Eins og vænta má lögðu þau bæði áherslu á boðskapinn um frið og fögnuð vegna komu Jesú Krists í heiminn á þessari fæðingarhátíð Frelsarans sem kristnir menn víða um heim fagna í dag.

Í tilefni jólanna fluttu einnig ávörp leiðtogar fjölmargra ríkja, eins og forseti Bandaríkjanna og forsætisráðherra Bretlands, sem og leiðtogi stjórnarandstöðunnar þar í landi og auðvitað Elísabetar drottningar sjálfrar.

Agnes þekkir rafmagnsleysið að Vestan

Frú Agnes Bragadóttir, biskup Íslands lagði áherslu á samstöðu þjóðarinnar, í jólaávarpi sínu í Dómkirkjunni í dag, vegna óveðursins sem gekk yfir á dögunum að því er mbl.is segir frá. Þakkaði hún bæði björgunarsveitarmönnum og þolinmóðum vinnuveitendum þeirra fyrir sín störf, sem og starfsmenn rafmagnsveitufyrirtækjanna.

Vísaði hún til reynslu uppvaxtarára sinna á Ísafirði þar sem faðir hennar var prestur og svo til Bolungarvíkur þar sem hún var sjálf vinsæll prestur áður en hún tók við biskupsembættinu.

„Hafandi búið vestur á fjörðum megnið af mínu lífi þá veit ég hvernig það er þegar rafmagnið slær út,“ sagði Agnes en Vestfirðir hafa löngum búið við ótryggara rafmagn en aðrir hlutar landsins.

„Þess vegna eru þau sem búa við slíkar aðstæður með vasaljós eða kerti og eldfæri á vissum stöðum í húsum sínum til hægt sé að kveikja ljós í myrkrinu. Verra er þegar rafmagnið gefur líka hita í húsin. Þá verður kuldi, jafnvel níst­andi kuldi ef rafmagnsleysið varir lengi.“

Tengdi hún saman samstarf fólks við samstarfið sem lífið er fyrir hvern og einn okkar, samstarfsverkefni Guðs og manns. „Þá fyrst þegar hið veraldlega og andlega koma saman náum við að vera sæl og hamingjusöm. Andleg velferð hvers manns er köllun kirkjunnar í samfélaginu.“

Boris og Páfinn vörpuðu kastljósinu á ofsóknir á hendur kristnu fólki

Fransis Páfi snerti einnig á náttúruhamförum í sínu ávarpi, bað fyrir þeim sem í þeim lentu, sem og sjúkdómum ásamt því að hvetja fólk til að mýkja hjarta sitt gagnvart velferð annarra að því er BBC fjallar um.

Jafnframt varpaði hann kastljósinu á ofsóknir gegn kristnum mönnum víða um heim, sérstaklega í Afríku, en um 35 kristnir voru drepnir í Burkina Faso á aðfangadag jóla. Þess má geta að íslenskir kristniboðar hafa löngum starfrækt starfsemi ABC hjálparstarfsins í því landi.

Boris Johnson, nýendurkjörinn forsætisráðherra Bretlands hjó í sömu knérun í sínu ávarpi, og lýsti yfir samstöðu með kristnum um allan heim sem hafa þurft að lýða ofsóknir.

„Fyrir þá, er jóladag fagnað í einrúmi, í felum, jafnvel í fangaklefa,“ sagði Boris og sagðist vilja beyta stöðu sinni sem forsætisráðherra til að breyta því. „Við stöndum með kristnum, í samstöðu, og við munum verja rétt ykkar til að ástunda trú ykkar.“

Loks vísaði hann í komandi ár og sagði að fagna ætti því góða sem væri handan við hornið, án þess þó að minnast á Brexit sem verður í lok næsta mánaðar. Jafnframt þakkaði hann starfsfólki opinberu ríkisheilbrigðisstofnunar Bretlands, sem og annarra opinberra starfsmanna, sem voru á vakt yfir hátíðirnar, þar á meðal hermanna.

Boris hélt einnig ávarp við byrjun Hanukka hátíðar gyðinga þann 22. desember síðastliðinn:

Corbyn þakkar sjálfboðaliðum og Trump hermönnum

Jeremy Corbyn, fráfarandi leiðtogi Verkamannaflokksins sem tapaði stórum í nýafstöðnum kosningum þar í landi, talaði á svipuðum nótum og þakkaði sérstaklega sjálfboðaliðum. Guardian fjallaði ítarlega um hve léttur Boris var í sínu ávarpi miðað við niðurdrepandi tón ávarps Corbyn.

Loks ávörpuðu Trump hjónin, Donald forseti Bandaríkjanna og Melanie kona hans bandaríska hermenn sem ekki komust í frí yfir jólin heldur standa vaktina út um allan heim og þakkaði hann þeim fyrir störf sín og sagðist biðja sérstaklega fyrir þeim.

„Saman verðum við að fóstra menningu skilnings og virðingar-sem líf Krists er dæmisaga fyrir,“ sagði Trump meðal annars í ávarpi sínu sem hægt er að lesa um á vefsíðu Axios .

Loks ávarpaði Elísabet Englandsdrottning bresku þjóðina og allt samveldið í sínu hefðbundna jólaávarpi: