*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 4. maí 2018 18:01

Jólagjöf borgarinnar ekki útboðsskyld

Reykjavíkurborg var heimilt að gefa starfsmönnum sínum miða í Borgarleikhúsið í jólagjöf án útboðs.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Kærunefnd útboðsmála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að gefa starfsmönnum sínum leikhúsmiða í Borgarleikhúsið í jólagjöf án útboðs. Þjóðleikhúsið kærði jólagjöfina til kærunefndar útboðsmála en andvirði miðanna nam samtals 43.462.500 krónum.

Þjóðleikhúsið taldi að fjölda gjafakorta væri til þess fallin að hafa áhrif á möguleika þess til að selja leikhúsmiða þar sem fjöldi miða sem Reykjavíkurborg keypti nam um 20% af öllum seldum miðum hjá Þjóðleikhúsinu á einu ári. „Því sé augljóst að gjöf varnaraðila á leikhúsmiðum til starfsmanna sinna sem flestir búi á höfuðborgarsvæðinu muni hafa áhrif á getu kæranda til að selja hinum sömu íbúum miða í Þjóðleikhúsið. Telur kærandi þetta því vera meiriháttar inngrip á viðkvæman leikhúsmarkað sem sé til þess fallið að valda honum tjóni," segir í úrskurði kærunefndarinnar.

Kærunefndin féllst ekki á þennan málatilbúnað. Kaupin hafi flokkist undir svokallaða sértæka þjónustu þar sem viðmiðunarfjárhæð vegna útboða sé 115.620.000 krónur. „Leiðir af þessu að umrædd innkaup voru ekki útboðsskyld samkvæmt ákvæðum laga um opinber innkaup," segir í úrskurðinum.