*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 19. nóvember 2013 10:22

Jólagjöfin er lífstílsbók

Áætlað að hver einstaklingur verji 44 þúsund krónum vegna jólanna í ár.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Jólagjöfin í ár er lífstílsbók, að mati valnefndar sem valdi gjöfina fyrir Rannsóknarsetur verslunarinnar. Skýrsla Rannsóknarsetursins um jólaverslunina kom út i morgun. Þar kemur fram að áætlað er að jólaverslunin aukist um 4% frá síðasta ári. Leiðrétt fyrir verðhækkunum má ætla að hækkunin nemi um 0,5% að raunvirði.

Áætlað er að heildarvelta í smásöluverslun í nóvember og desember verði tæplega 69 milljarðar króna án virðisaukaskatts. Þá er gert ráð fyrir að hver Íslendingur verji að meðaltali um 44 þúsund krónum til innkaupa sem rekja má til jólahaldsins.

Um jólagjöfina í ár segir í skýrslunni að strax í kjölfar efnahagshrunsins hafi orðið vart lífsstílsbreytinga í átt til meiri sjálfsþurftarbúskapar og bætts lífernis í stað lífsfyllingar sem fólst áður í kaupum á dýrum hlutum og fjárfestingum.

Að mati valnefndar rímar jólagjöfin í ár vel við tíðarandann. Nefndin segir að lífstílsbækur fjalli að mörgu leyti um góðar lífsvenjur og dyggðir sem lengi hafa verið í heiðri hafðar og ganga nú í endurnýjun lífdaga. 

„Lífstílsbækur þjóna öllum aldurshópum, bæði börnum sem vilja verða stór og sterk, fullorðnum sem hugsa um heilsuna og ömmu og afa sem vilja fá sem mest út úr ævikvöldinu. Lífstílsbækur eru bæði fyrir ríka og fátæka, spekinga og spjátrunga, ævintýramenn og ættfræðinga, snyrtipinna, framagjarna og fílhrausta,“ segir valnefndin.