Þegar aðeins vika er til jóla vonast verslunareigendur í Bandaríkjunum til þess að neytendur versli meira á síðustu stundu. Jólainnkaupin hafa farið hægt af stað og eru neysluvísitölur undir væntingum í nóvember og það sem af er desember.

Wall Street Journal segir frá því í dag að bæði þessi helgi og síðasta hafi verið með þeim lakari í jólainnkaupum miðað við síðustu ár. Bæði hefur veður verið vont í flest öllum fylkjum Bandaríkjanna og einhverjir kunna að hafa áhyggjur af efnahagsástandi landsins. Verð hefur farið hækkandi, þá helst á mat, hita og olíu sem veldur því að fólk fer hægar af stað í jólainnkaupin segir blaðið. Einnig virðast margir vera að bíða þangað til verslanir lækka verð sín síðustu vikuna fyrir jól.

Eins hefur sala á internetinu verið langt frá því sem gengur og gerist. VB.is greindi frá því á föstudag að sala á netinu hefði aðeins aukist um 19% í nóvember miðað við 26% á sama tíma í fyrra. Búist var við 26% aukningu í ár og eru þetta því nokkur vonbrigði fyrir smá- og heildsölur.

Sérfræðingar sem WSJ ræddi við eru þó bjartsýnir á síðustu vikuna. Þeir minna á að enn er vika til jóla og heil helgi eftir. Verslanir munu í vikunni koma með fleiri tilboð og lækka vörur og fólk eigi enn eftir að taka við sér.

Nú um helgina var mikið að gera í verslunarmiðstöðvum út um öll Bandaríkin en salan samt langt frá því sem gerist venjulega á þessum tíma. Viðmælandi WSJ segir að fólk sé að skoða sig um og ákveða hvað það ætli að versla, hvar og hvenær. Fólk muni samt versla engu að síður.

Verslanir vestanhafs hafa verið að auka tilboð sín og lengja opnunartíma. Þá var Toys'R'Us með tveggja daga útsölu á föstudag og laugardag og opið frá kl. 7 um morguninn til miðnættis. Verslunin hefur augýst opnunartíma til miðnættis víðsvegar um landið. Macy's hefur einnig lengt sinn opnunartíma og auglýst opnun til miðnættis víða.

Það verður því áhugavert að fylgjast með næstu viku í Bandaríkjunum. Hvernig verslun fer fram og hvort hún mun hafa einhver áhrif á markaði almennt. Viðskiptablaðið mun fylgjast með næstu viku.