Breska verslanakeðjan House of Fraser, sem er í eigu Baugs, tilkynnti í dag að sambærileg jólasala hefði aukist um 2,4% á milli ára. Í tilkynningunni segir að niðurstaðan sé sérstaklega ánægjuleg í ljósi þess, að samanburðartölurnar fyrir ári hafi verið mjög sterkar. Framlegð jókst einnig á umræddu skeiði; á fimm vikna tímabili sem lauk 3. janúar. Þá segir í tilkynningunni að birgðastaða fyrirtækisins hafi batnað og birgðir séu nú 20% minni en sama tíma fyrir ári.

Stjórnarformaður House of Frasier, Don McCarthy, segir í tilkynningunni að jólasalan hafi verið frábær endir á fyrsta heila árinu sem núverandi eigendur voru við stjórnvölinn í fyrirtækinu. „Við sjáum hvort tveggja hærri sambærilega sölu og hærri hagnað, þrátt fyrir að umhverfið í smásölu sé almennt erfitt.“