Neytendur í Bandaríkjunum byrja hátíðirnar snemma og hafa eytt grimmilega í flatskjársjónvörp og tölvur yfir þakkagjörðarhátíðina, segir í frétt Dow Jones.

Í Bandaríkjunum er föstudagurinn sem leið nefndur svarti föstudagurinn (e. Black Friday), en litið er á hann sem fyrsta verslunardag jólatímabilsins og jafnfram einn helsta verslunardag ársins.

En þrátt fyrir gríðarlega markaðsherferð og mikla afslætti í nóvember hefur mánaðarsala í Wal-Mart verlsununm ekki verið minni í yfir tíu ár, og hefur það vakið áhyggjur um að jólaverlsunin muni ekki standa undir væntingum.

Greiningarfyrirtækið ShopperTrak RCT, segir að salan á föstudaginn hefði aukist um 6% frá árinu áður og að salan næmi 8,96 milljörðum Bandaríkjadala (625 milljörðum króna.)

National Retail Federation spáir því að jólasalan muni aukast um 5% á þessu ári og muni nema 457,4 milljörðum Bandaríkjadala (31,9 billjónum króna). Fyrirtækið segir ennfremur að yfir 140 milljón manns hafi farið að verlsa á föstudaginn, og í þrjú þúsund manna úrtaki eyddu neytendur að meðaltali um 25 þúsund krónum á mann, sem er 19% aukning frá því í fyrra.