Jólasalan í Bandaríkjunum var undir væntingum þrátt fyrir mikla sölu síðustu dagana fyrir jól, að því er segir í WSJ. Smásala, að undanskildum bifreiðum, jókst þó um 3,6% í jólavertíðinni, sem nær frá Þakkargjörðarhátíðinni til miðnættis á aðfangadag, samkvæmt tölum frá ráðgjafarfyrirtæki MasterCard. Væntingar voru um 3,5%-4,5% söluaukningu.

Í WSJ er haft eftir talsmanni ráðgjafarfyrirtækisins að ef ekki hefði komið til mikil sala í upphafi og lok tímabilsins hefði heildarsalan dregist saman á milli ára.

Meðal þeirra geira sem gengu vel í ár voru netviðskipti, sem jukust um 22,4% frá sama tíma í fyrra. Lúxusvarningur jókst einnig mikið, eða um 7,1%, þegar sala á skartgripum er undanskilin. Ef skartgripir eru teknir með dróst sala á lúxusvarningi saman um 1,9%, en margir smásalar sögðu að sala þeirra hefði gengið illa.