Jólaþorpið á Thorsplani í Hafnarfirði opnar á laugardaginn kl. 12. Aðalviðburðurinn um helgina verður tendrun ljósa á jólatrénu fyrir miðju þorpsins en tréð er gjöf frá vinabæ Hafnarfjarðar, Friðriksbergi í Danmörku. Í tilkynningu kemur fram að í þeirri dagskrá mun karlakórinn Þrestir ásamt Kristjáni Jóhannssyni, álfadrottningunni, grýlu og jólasveinunum taka þátt.

Í jólaþorpinu verður hægt að kaupa ýmiss konar gjafavöru, heimilisiðnað, handverk og hönnun og þá verða í boði veitingar eins og heitt kakó, smákökurog vöfflur.

Jólaþorpið er opið frá 12-17 allar helgar fram til jóla og einnig 19. og 20 desember auk Þorláksmessu frá 16-21.