Jólaaðstoðin 2010 og hjálparstarf Samhjálpar fengu í vikunni úthlutað 6 milljónum króna frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá kirkjunni en dagana 6. – 8. desember voru haldnir árlegir jólatónleikar kirkjunnar með yfirskriftinni „Fyrir þá sem minna mega sín”. Líkt og fyrir ár voru haldnir sex tónleikar en sérstakur gestasöngvari að þessu sinni var Eiríkur Hauksson.

Undanfarin ár hafa ýmis hjálparsamtök notið góðs af afrakstri tónleikanna en sem fyrr segir voru það Jólaaðstoðin og Samhjálp sem hlutu styrkinn.

Jólaaðstoðin 2010 er samstarfsverkefni Hjálparstofnunar kirkjunnar, Hjálpræðishersins, Mæðrastyrksnefndar og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins. Samhjálp rekur m.a. meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot í Mosfellsbæ og Kaffistofuna við Borgartún.