Flugfélagið SAS hefur samið við CAU, verkalýðsfélag flugfreyja- og þjóna í Danmörku, um að starfsmennirnir fái eingöngu helming launa sinna greidd fyrir nóvember mánuð árið 2012 og 2013. Launin sem greidd verða út þann 1. desember munu því ekki létta starfsmönnum jólahaldið þessi árin. Félagið hyggst þó lána þeim starfsmönnum það sem upp á vantar ef þeir eru í vandræðum. Þetta kemur fram í frétt Extra Bladet um málið. Þar að auki fá starfsmennirnir engar launahækkanir næstu tvö árin.

Samkvæmt fréttinni getur verið um að ræða launalækkun upp á um 15 þúsund krónur danskar fyrir hvorn mánuð. Það jafngildir tæplega 300 þúsund íslenskum krónum.

SAS hefur reynt að lækka kostnaðarliði fyrirtækisins að undanförnu en rekstur fyrirtækisins hefur gengið illa og ríkissjóðir Dana, Svía og Norðmanna þurft að aðstoða við hlutafjáraukningu á undanförnum árum. Félagið staðfestir launalækkanirnar samkvæmt frétt Extra Bladet.