Velta í dagvöruverslun jókst um 2% á föstu verðlagi í desember miðað við sama mánuð árið 2012. Verð á dagvöru hækkaði um 3,8% á síðasta ári. Þetta kemur fram í úttekt Rannsóknarseturs verslunarinnar en það birtir mánaðarlega upplýsingar um þróun í veltu í dagvöru, fataverslun, skóverslun, áfengisverslun, raftækjaverslun og húsgagnaverslun.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir kaupmenn á heildina litið sátta með jólaverslunina. „Ég held að þetta sé í takt við væntingar,“ segir Andrés. „Menn gerðu sér raunhæfar væntingar og þessi niðurstaða er í raun betri en menn þorðu að vona. Jólaverslunin fór mjög hægt af stað og um tíma voru menn uggandi vegna þess. Hún tók síðan kipp upp úr miðjum desember þegar opnunartíminn lengdist og nýtt kortatímabil hófst. Verslunin var síðan bara nokkuð góð síðustu tíu til tólf dagana fyrir jól. Almennt séð held ég að það sé hægt að segja að menn séu ánægðir þó vissulega sé það misjafnt eftir brönsum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .