Fjallað er um jólaverslunina í Bandaríkjunum á Vegvísi Landsbankans í dag. Þar segir að í dag sé hinn svokallaði Black Friday í Bandaríkjunum sem er föstudagurinn eftir þakkargjörðarhátíðardaginn en dagurinn markar upphaf jólainnkaupa vestanhafs. Búist er við þó nokkurri smásölu í dag en eflaust á sú kólnun í hagkerfi Bandaríkjanna, vegna vandræða tengdum ótryggum húsnæðislánum, eftir að hafa áhrif á sölutölur verslana.

Opnað fyrir allar aldir
Á þessum degi opna stærri verslanir og verslunarklasar mjög snemma á morgnanna og bjóða vörur á sérstöku tilboði aðeins þennan eina dag. Til að mynda opnaði bandaríski leikfangarisinn Toys R' Us verslanir sínar klukkan fimm í morgun að staðartíma og voru forsvarsmenn þeirra bjartsýnir um sölu dagsins. Jafnvel þó verslanir vestanhafs opnuðu dyr sínar mikið fyrr en aðra daga þá voru biðraðir byrjaðar að myndast töluvert fyrir opnun.

Nafngift dagsins er dregin frá því að áður fyrr á þessum degi ársins fóru verslanir loks að skila hagnaði og letrið í bókhaldinu breyttist því úr rauðu í svart, segir á Vegvísi Landsbankans.