Innlend kortavelta nam 92,5 milljörðum í desembermánuði og jókst um 16,2% milli mánaða. Hún var 10,4% hærri samanborið við desember 2020 og 20,1% hærri en í desember 2019 miðað við breytilegt verðlag. Þetta kemur fram í greiningu Rannsóknarseturs verslunarinnar . Það má leiða að því líkur að kórónuveirufaraldurinn hafi orðið til þess að Íslendingar hafi verslað jólainnkaupin í auknum mæli innanlands í stað erlendis.

Heildargreiðslukortavelta í desember nam rúmum 101 milljarði króna og jókst um tæp 13% milli mánaða og um 18,6% samanborið við desember 2020. Erlend kortavelta var 8,8% af heildargreiðslukortaveltunni en hún var 2% af heildarveltu í fyrra og 14,4% í desember 2019.

Erlenda kortaveltan dróst saman um 13% milli mánaða sem er mesti samdráttur sem mælst hefur milli nóvember og desember síðan RSV hóf gagnasöfnun á kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Sóttvarnartakmarkanir vegna nýs afbrigðis kórónuveirunnar hafa án efa mikil áhrif á þessa þróun, að því er kemur fram í greiningu RSV.

Mikið keypt af bókum og áfengi

62% af kortaveltu Íslendinga hérlendis fór í verslun í desember, en 38% í þjónustu. Flesta aðra mánuði ársins er hlutfallið jafnt milli verslunar og þjónustu. Mesta aukningin milli mánaða var í veltu bóka, blaða og hljómplötuverslana, um 65% aukning, og í veltu áfengisverslana, um 63%. Fataverslun jókst einnig um 54% í desember og velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum um 28%.

Miðlun jókst um 44% milli mánaða. Ef flokkurinn er skoðaður sem tímaröð má sjá að flokkurinn toppar í desember og tekur skarpa dýfu í janúar ár eftir ár. Margir eiga það til að kaupa áskrift að hinum ýmsu miðlum til að njóta í aðdraganda jóla og jólafríinu en segja svo upp í janúar, að því er kemur fram í greiningu RSV.