Sem fyrr eru vikurnar fyrir jól einn mikilvægast tími ársins fyrir íslenska kaupmenn enda er meginþorri þjóðarinnar í leit að gjöfum til þess að gleðja sína nánustu. Jólaverslun í virðist fara svipað af stað miðað við árið í fyrra en þó er örlítil aukning í aðsókn að verslunarmiðstöðvum.

„Það má segja að tölurnar í ár séu nánast eins og í fyrra. Allavega af því sem ég get dæmt um af aðsóknartölum fyrstu tvær vikur desembermánaðar í Smáralind,“ segir Sturla Gunnar Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Smáralindar aðspurður um hvernig jólaverslunin hafi farið af stað þetta árið.

„Hljóðið í kaupmönnum er almennt ágætt þó það sé alltaf ákveðið stress á þessum tíma þar sem búið er að kaupa mikið inn o.s.frv. Ég er hins vegar búinn að vera lengi í jólaverslun og reynslan segir mér að jólin koma alltaf og að salan verði góð. Ég á von á að það verði 2-3% aukning í gestafjölda þegar upp verður staðið.“  Spurður hvort að neikvæð umræða hafi  áhrif á jólaverslunina segir Sturla að hún hafi ekki hjálpað til. „Öll neikvæð umræða er auðvitað slæm fyrir verslunina. Uppsagnir, átök á vinnumarkaði hafa áhrif á verslun almennt og hafa alltaf gert það. Það mætti vera meiri bjartsýni yfir þessu og auðvitað hefur flökt á genginu ekki verið til þess að bæta þetta heldur. Ég myndi því telja það ákveðinn varnarsigur að vera með aukningu milli ára.“

Stórir dagar framundan

„Að mínu mati hefur jólaverslunin verið afslöppuð og fólk virðist vera að taka þessu með stóískri ró,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar. „Jólaverslunin hefst í raun af fullum krafti í nóvember og veltan í þeim mánuði var 4% hærri en í fyrra á meðan aðsókn var á pari milli ára. Þá hefur aðsóknin fyrstu 14 daga desembermánaðar verið 1,5% hærri en í fyrra.“

Að sögn Sigurjóns eru hins vegar aðsóknarmestu dagar ársins framundan. „Síðustu vikuna fyrir jól erum við fá á bilinu 28-40.000 manns á hverjum degi.“

Hann segir að hljóðið í kaupmönnum almennt vera gott. „Allavega af því sem ég heyri hér í húsinu þá eru kaupmenn sáttir og merkja aukningu frá fyrra ári. Maður myndi heyra barlóminn ansi fljótt. Það bara fylgir því alla jafna að ef það er aukning í aðsókn þá skilur fólk meira eftir í húsinu.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um fasteignamarkaðinn.
  • Fjallað er um stöðu kjaraviðræðna.
  • Úttekt á afkomu stærstu tryggingafélaganna.
  • Viðtal við Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Tulipop.
  • Umfjöllun um nýtt fjártæknisetur á vegum HR.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað.
  • Týr fjallar um verkalýðshetjur í gulum vestum.