Rannsóknarsetur Verslunarinnar áætlar að jólaverslunin aukist um 10,3% frá síðasta ári og að velta í smásöluverslun verði um 85 milljarðar kr. án virðisaukaskatts í nóvember og desember.

Þetta er mesti vöxtur í jólaverslun á milli ára frá bankahruninu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu rannsóknarsetursins.

Af spánni má draga þá ályktun að hver Íslendingur verji að jafnaði 53.813 kr. til innkaupa í nóvember og desember, sem rekja má til árstímans.

Í fyrra nam þessi upphæð 49.156. Vöxturinn á milli ára er því 9,5%. Tekið er fram í tilkynningunni að að mannfjöldi aukist um 1,1% á þessu tímabili samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar.