„Það má segja að jólaverslunin okkar hafi verið mjög góð. Vöxturinn heilt yfir var upp á 4,5%, á móti því að markaðurinn í heild var niður um 4%. Þannig að því leytinu til er þetta mjög fín niðurstaða," segir Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segist heilt yfir mjög ánægður með jólaverslunina og að hún hafi verið betri en félagið hafi búið sig undir.

Gunnar segir að Baugur sé með mikið af góðum vörumerkjum, aðspurður hvað skýri betri árangur Baugs verslana en annarra. Tekur hann sem dæmi Iceland Foods keðjuna, sem hann segir gríðarlega sterka. „Mörg af vörumerkjum okkar eru mjög sterk og koma sterkt út úr þessu tímabili. Aðstæður eru auðvitað þungar og það hefur áhrif á okkur líka en heilt yfir var þetta mjög fínt," segir Gunnar.