Fréttapóstur Samtaka verslunar og þjónustu greindi frá því í dag að kaupmenn séu sammála um að jólaverslunin hefði farið af stað um þessa helgi. Þetta er nokkuð seinna en í fyrra og ástæðan að sögn manna m.a. sú að í ár eru svokölluð brandajól. Þau verða þegar jóladag ber upp á mánudegi.

Aðventan hófst í gær og fjórði sunnudagur í aðventu verður aðfangadagur jóla sem styttir aðventuna um tæpa viku frá því í fyrra.

Í fréttapósti SVÞ kemur fram að mikil sala hefur verið í heimilistækjum eins og ísskápum, flatskjám og uppþvottavélum í nóvember og búast menn við áframhaldandi mikilli sölu í desember. Ávaxta- og grænmetispressan hefur verið vinsæl undanfarin tvö ár og heldur sínu striki enda nýlega kosin jólagjöf ársins hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Sala á gjafakortum hefur aukist jafnt og þétt og eru Kringlan og Smáralind farin að selja rafræn gjafakort í fyrsta sinn. Rafræn gjafakort eru einnig væntanleg hjá Miðborgarsamtökunum innan tíðar. Rafrænu kortin virka eins og debitkort nema þau eru handhafakort og því ekki skráð á nafn og ekki með mynd og undirskrift korthafa.

Opnunartími verslanamiðstöðva og verslana í miðborginni vegna jólanna hefur verið styttur um allt að 16,5 klst. frá því sem var í fyrra. Stytting opnunartíma ætti þó ekki að koma að sök fyrir viðskiptavininn, þar sem opið verður langt fram á kvöld flesta daga fram að jólum.